31 maí 2007

Dagur 7: Mánudagur 28. maí 2007

Vöknuðum um níu, fengum okkur morgunmat á hótelinu og vorum komin af stað kl 10.30.

Í fyrsta skipti í ferðinni fengum við í dag rigningu. Veit ekki hvort það sé rigningin sem spilaði eitthvað inn í en einhvern veginn fann ekkert okkar eitthvað heillandi við Oklahoma City. Ákváðum að keyra upp að minnisvarðanum þar sem byggingin var sprengd í apríl 1995 og 168 manns létu lífið.

Frá götunni var minnisvarðinn því miður ekki mikið fyrir augað, með fullri virðingu fyrir þeim sem létu lífið í árásinni. Hins vegar þegar komið var fyrir innan var mjög fallegt um að lítast, búið var að búa til minnisvarða sem var í raun 168 stólar á grasbletti, einn fyrir hvern sem lést þennan dag. En þar sem það var grenjandi rigning þá stoppuðum við ekki lengi þarna. Þá þurftum við að ákveða hvort við ætluðum bara að keyra strax frá Oklahoma City eða finna okkur eitthvað að gera þar.

Við enduðum með að fara á National Cowboy & Western Heritage Museum þar sem við skoðuðum kúreka, kúrekastígvél, kúrekahatta, kúrekaþorp og alls konar annað skemmtilegt. Okkur fannst okkur öllum reyndar safnið svolítið illa upp sett og doldið flókið að rata um það .. en við rötuðum á kaffiteríuna í endann sem er eflaust besta ákvörðun sem við höfum tekið hingað til. Fengum þennan líka æðislega hlaðborð, heimilislegan mömmumat. Jummí

Klukkan var orðin um þrjú þegar við lögðum af stað frá Oklahoma. Við keyrðum beint til Amarillo sem tók um 4 klst. Á einni bensínstöðinni fundum við Hótel Coupon bók þar sem voru couponar á mörg hótel/mótel í Amarillo. Fundum eitt sem var rosa fínt, þ.e. hótelið sjálft og lobbýið var geggjað en gamla byggingin var notuð sem mótel þannig að við fengum herbergi þar fyrir $12 á mann nóttina. Kliiiink! Höfðum meira að segja aðgang að sundlauginni og morgunverðinum.

Við drifum í því að tékka okkur inn og skelltum okkur svo í tívolí. Klukkan var um hálfátta þegar við komum þangað. Það var opið til tíu og það voru mjög fáir í garðinum þannig að við hlupum um allan garðinn og prófuðum hvert einasta tæki. Skemmtum okkur konunglega í rússíbönum og öðrum tryllitækjum. Ásdís, Ólöf og Gummi fóru í svona vatnsrússíbanatæki þannig að þau voru rennandi blaut frá toppi til táar.

Um tíuleytið héldum við heim á hótel hress og kát og sársvöng. Stoppuðum á Outback Steakhouse og fengum góðan mat og frábæra þjónustu. Þjónustustúlkan benti okkur á kúrekabúð sem við gætum farið í til að versla kúrekahatta og síðan á ýmsa áhugaverða staði í kringum Amarillo.

Við fórum síðan upp á hótel og Ásdís og Ólöf komu sér í háttinn.. en við hin bjuggum okkur til pókerborð úr straubrettinu og spiluðum póker langt fram á nótt og drukkum ófáa bjórana.

Nú erum við sem sagt búin að bæta Oklahoma og Texas við í fylkjasafnið.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus bullaði...

Alsherjar fylkjasöfnun i gangi hehehehe
Knús
Dagga

07:06  
Anonymous Nafnlaus bullaði...

Frábært, hvernig tók nína í það að fara í rússibana??
varð eitthvað úr því?

Koss Bryndís

15:18  

Skrifa ummæli

<< Home